Innlent

Óska eftir aðkomu Landlæknisembættisins

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Geir Gunnlaugsson mun aðstoða við að finna laus á deilum hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
Geir Gunnlaugsson mun aðstoða við að finna laus á deilum hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
Þröstur Óskarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, óskaði í gærkvöldi formlega eftir aðkomu embættis landlæknis í að leysa deilu sem komið hefur upp meðal lækna hjá stofnuninni.

Fimm læknar við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sendu framkvæmdastjóra stofnunarinnar bréf fyrir mánuði og kröfðust þess að Þorsteini Jóhannessyni, framkvæmdastjóra lækninga við stofnunina og skurðlækni, yrði tafarlaust vikið frá störfum vegna veikinda, dómgreindarleysis og minnistruflana.

Þröstur hitti Geir Gunnlaugsson, landlækni, í s.l. viku þar sem þeir fóru yfir þá stöðu sem komin er upp hjá stofnuninni. Í framhaldi þessa hefur Þröstur upplýst landlækni um framvindu mála. Í þessum samræðum hefur landlæknir lagt áherslu á að farsælast væri að starfsmannavandi af þessum toga yrði leystur á vettvangi, þ.e. að stjórnendur stofnununarinnar myndu leysa málið. Í bréfi í gær fer forstjóri stofnunarinnar síðan formlega fram á það að embættið leggi mat á starfshæfni umrædds læknis.

„Embættið hefur lögbundnum skyldum að gegna og á fundi í morgun fór ég ásamt samstarfsfólki yfir það hver aðkoma embættisins ætti að vera í þessu máli. Embættið hefur verið upplýst um gang mála frá því að málið kom upp en við höfum hingað til lagt áherslu á að stofnunin leysi málin innan sinna raða. Við munum skoða vandlega í kjölfar bréfs forstjórans á hvern hátt embættið eigi að koma að þessu máli út frá verk- og valdsviði þess,“ segir Geir í samtali við Vísi.

Læknarnir telja að Þorsteinn sé hvorki fær til að framkvæma aðgerðir á sjúklingum né standa skurðlæknavaktir vegna veikinda sem hann eigi við að stríða. Þorsteinn vísar þessum fullyrðingum kollega sinna á bug en hefur þó fallist á að fara í veikindaleyfi. Hann snéri aftur til starfa í síðustu viku.

Landlæknir segir stöðuna á stofnuninni alvarlega. „Þetta er greinilega birtingarmynd samstarfsörðugleika sem virðast eiga sér djúpar rætur. Mér er mikið í mun að þetta mál leysist og mun bregðast við í samræmi við lögbundnar skyldur embættisins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×