Innlent

Glæsileg húllatilþrif á Lækjartorgi

Hrund Þórsdóttir skrifar
Í tilefni af Alþjóðlega húlladeginum gafst gestum og gangandi kostur á að sjá glæsilegan húlladans á Lækjartorgi, en hann var saminn sérstaklega í tilefni dagsins og dansaður víða um heim í dag. Alda Brynja Birgisdóttir segir tilganginn að vekja athygli á húlla.

Húlla, hvað er það?

„Það er hægt að gera alls konar með húlla, það er ekki bara á mjöðmunum eins og margir halda heldur eru þetta alls konar brögð og dans og hreyfing. Það er hægt að húlla á mjög marga vegu í mjög mörgum stílum. Þú getur verið að breikdansa með húlahring eða í magadansi með húlahring, hvað sem hver og einn velur sér,“ segir Alda.

Hún kennir húlla í Kramhúsinu og með henni í dag dansaði hópur stúlkna sem lært hefur hjá henni þar. „Því meira sem þú húllar því betri verður þú og getur gert meira með hringnum. Það er það sem mér finnst svo hvetjandi sjálfri, að ég er að öðlast einhvern hæfileika og get gert hluti sem kannski ekki hver sem er getur gert. Það finnst mér alltaf skemmtilegt.“

Vegfarendur voru óhræddir við að spreyta sig á hringjunum og Unnur Aldred vakti sérstaka athygli okkar. Eins og sjá má í meðfylgjandi frétt er hún svo sannarlega með húllahreyfingarnar á hreinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×