Innlent

Sjónum beint að geðheilsu á efri árum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Bergþór Böðvarsson er talsmaður notenda geðsviðs og formaður undirbúningsnefndar Alþjóða geðheilbrigðisdagsins.
Bergþór Böðvarsson er talsmaður notenda geðsviðs og formaður undirbúningsnefndar Alþjóða geðheilbrigðisdagsins. Mynd/HAG
Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn er haldinn hátíðlegur 10. október. Yfirskrift dagsins er geðheilsa á efri árum til að beina sjónum að úrræðum og meðferðum fyrir eldra fólk.

Bergþór Böðvarsson, formaður undirbúningsnefndar dagsins, segir mikilvægt að kynna úrræði fyrir þá sem eiga við geðræn vandamál að stríða á efri árum.

„Við viljum benda á hvað það er mikilvægt að fólk sem er að ná háum aldri hugi vel að heilsunni. Því miður hefur borið á því að það eru fordómar varðandi geðheilbrigðismál og þá er mikilvægt að tala um það líka og benda á þau úrræði sem eru til og þær leiðir sem eru mikilvægar“, segir Bergþór.

Vakin hefur verið athygli á því að mun fleira eldra fólk á við ýmis geðræn vandamál að stríða heldur en haldið hefur verið. Nýleg íslensk rannsókn Helgu Hansdóttur, lyf- og öldrunarlæknis, leiddi t.a.m. í ljós að ríflega 80 prósent íbúa á hjúkrunarheimili væri ávísað geðlyfjum. Þar af væri um helmingur á þunglyndislyfjum. Gagnrýnt hefur verið í hversu litlum mæli komið hefur verið á móts við þennan hóp með öðrum úrræðum á borð við samtalsmeðferð og hópmeðferðir.

Nánari upplýsingar um fjölbreytta dagskrá næstu vikuna af tilefni geðheilbrigðisdagsins eru að finna á 10okt.com




Fleiri fréttir

Sjá meira


×