Innlent

2,8 milljónir til Einstakra barna

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, og Guðmundur Björgvin Gylfason, formaður Einstakra barna.
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, og Guðmundur Björgvin Gylfason, formaður Einstakra barna. Vísir/Sjóvá
Sjóvá endurgreiðir árlega viðskiptavinum sínum sem hafa verið tjónlausir og skilvísir hluta iðgjalda sinna. Þeir sem það kjósa gefst kostur á að ráðstafa hluta eða allri endurgreiðslu sinni til góðgerðamála. Að þessu sinni varð félagið Einstök börn fyrir valinu. Um 1.300 manns ákváðu að verja endurgreiðslunni með þessum hætti og söfnuðust alls 2,8 milljónir króna.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, afhenti í gær fulltrúum Einstakra barna framlag viðskiptavina sinna og mun upphæðin renna til Styrktarsjóðs Einstakra barna.

Einstök börn er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa, jafnvel ógreinda sjúkdóma eða skerðingar. Félagið var stofnað árið 1997 af 15 foreldrum og fjölskyldum veikra barna. Síðan þá hefur félagið stækkað enda þörfin mikil og eru nú í félaginu um 220 fjölskyldur. Markmið félagsins er meðal annars að skapa sameiginlegan vettvang til að deila reynslu og vinna að bættum hag langveikra barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×