Innlent

„Nauðsynlegt að skilja þarfir fólksins“

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Pia Prytz Phiri, umdæmisstjóri Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norðurlöndin og Eystrasaltríkin.
Pia Prytz Phiri, umdæmisstjóri Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norðurlöndin og Eystrasaltríkin.
Einum albönskum hælisleitanda var vísað af landi brott í dag. Fulltrúi Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna segir að hælisleitendur fari sjálfviljugir úr landi, í meira en 75% tilfella, fái þeir almennilega ráðgjöf hjá yfirvöldum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu átti að senda tvo úr hópi albanskra hælisleitenda aftur til síns heima í morgun, en flugfélagið sem notast var við neitaði að taka við þeim báðum í einu þar sem þeir eru á sakaskrá, annar fyrir morð.  Því hefur einn hælisleitandi verið sendur úr landi.

Eins og kom fram í fréttum okkar í gær og fyrradag staðfesti innanríkisráðuneytið úrskurði Útlendingastofnunnar um að vísa tveimur hópum Albana úr landi og í öðrum hópnum eru ófrísk kona og börn. Fólkið kvíðir heimförinni en ekki er vitað hvenær þau verða send aftur til Albaníu.

Pia Prytz Phiri hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að almennt sé besta leiðin sú að fólk fari sjálfviljugt úr landi eftir að rætt hefur verið við það. „Í gegnum ráðgjöf og að viðkomandi sé látinn vita að hann flokkist ekki undir flóttamann og verði því að fara úr landi. Það sé betra að vera samvinnuþýður,“ segir hún.

Hún segir það hafa sýnt sig að meira en 75% hælisleitenda fari sjálfviljugir ef þeir fá almennilega ráðgjöf frá yfirvöldum í því landi sem sótt er um hæli í. Það sé nauðsynlegt að skilja þarfir fólksins, bæði einstaklinganna og fjöldskyldunnar sem heildar. Hún segir að einnig þurfi að taka sérstakt tillit til barna í þessu ferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×