Íslenski boltinn

Aron Einar: Gæti ekki haft aðdáendur KA að hvetja mig áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í leik með Cardiff.
Aron Einar Gunnarsson í leik með Cardiff. Mynd/NordicPhotos/Getty
Aron Einar Gunnarsson leikmaður Cardiff í ensku úrvalsdeildinni og fyrirliði íslenska landsliðsins hefur sterkar skoðanir á því hvort Akureyrarfélögin Þór og KA spili undir sama merki í fótbolta eða ekki. Akureyri teflir fram sameiginlegu liði í handboltanum og það er alltaf umræða í gangi fyrir norðan hvort það eigi einnig að vera svoleiðis í fótboltanum.

Aron Einar tjáði sig hressilega um málið í viðtali á vefsíðunni nordursport.net en þar er fjallað um Íþróttafréttir frá Akureyri.

„Það vita allir hvað mér finnst um sameiningarhugmyndir, mínar skoðanir eru þær sömu og hjá Arnóri Gunnarssyni, bróður mínum. Addi fór suður til að spila fyrir Val af því hann hafði ekki áhuga á að spila fyrir Akureyri. Við erum það miklir Þórsarar að ég sé ekki fyrir mér að spila með sameinuðu liði," segir Aron Einar og bætir svo við:

„Mín skoðun er sú að tvö lið verði að vera á Akureyri sem spili í tveimur efstu deildunum í fótboltanum, en ég skil auðvitað þau rök að minni kostnaður er að hafa eitt lið og veit að það eru margir hlynntir því. Ég segi þetta nú líka sem harður Þórsari og er sjálfsagt svolítið litaður af því að Þór er núna í úrvalsdeild en KA í þeirri fyrstu. Kannski fannst mörgum KA-mönnum akkúrat það sama í handboltanum því KA var að gera betri hluti en Þór á sínum tíma," segir Aron Einar.

Landsliðsfyrirliðinn er svo harður Þórsari að getur ekki einu sinni hugsað sér að KA-menn séu að hvetja hann upp í stúku. Hann segist aldrei ætla að spila fyrir sameiginlegt lið Þórs og KA.

„Ég gæti ekki haft aðdáendur KA í að hvetja mig áfram í leik, þó svo að ég eigi vini sem hafa spilað fyrir KA og/eða eru harðir KA-menn þá bara er þetta ekki eðlilegt fyrir mér, en eins og ég sagði áður þetta er bara mín skoðun og ég vil hafa tvö lið á Akureyri í fótboltanum," segir Aron Einar.

Það er hægt að sjá allt viðtalið með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×