Innlent

Brjálað hjá björgunarsveitunum

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Björgunarfélag Hornafjarðar að festa þakplötur
Björgunarfélag Hornafjarðar að festa þakplötur Friðrik Jónas Friðriksson
Björgunarsveitir hafa nú sinnt á áttunda tug verkefna víða um land í dag. Verkefnin hafa verið af ýmsum toga.

Frá klukkan 18:00 hefur verið tilkynnt um fok á Laugarvatni, Landeyjum, Vestmannaeyjum, Hornafirði, Vík, Árborg og Akureyri. Um hefur verið að ræða þakplötur og þök, gáma og tré sem falla. Nokkuð tjón varð við Rauðaberg við Hornafjörð þar sem viðbygging við útihús fauk í heilu lagi á móti björgunarsveitinni sem var að koma á staðinn.

Í Bolungarvík tryggði björgunarsveitin báta sem voru að losna í höfninni.

Einnig hafa nokkrir ökumenn verið aðstoðaðir með fasta bíla, meðal annars á Jökulhálsi, Kjalvegi, Námaskarði og Kollafjarðarheiði.

Frá því um kvöldmatarleyti hafa björgunarsveitir safnað saman ferðafólki sem lent hefur í vandræðum þegar grjót hefur fokið á bíla þess á Skeiðarársandi og nágrenni.

Hefur það verið sótt á brynvörðum bíl Björgunarsveitarinnar Kára í Öræfum og flutt í Hofgarð, sem er félagsheimili og skóli og skilgreint sem fjöldahjálparstöð. Á þessari stundu hafa ekki fengist upplýsingar um þann fjölda ferðafólks sem þar bíður af sér veðrið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×