Innlent

Töfrar litadýrð í íslensku ullina

Það er unnt að búa til alla liti úr náttúruefnum á Íslandi nema ef til vill þann bláa, sem er mikil ráðgáta. Þetta segir Guðrún Bjarnadóttir, náttúrufræðingur við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, sem vinnur að því að grafa upp þær aðferðir sem Íslendingar notuðu til forna til að lita klæði. Um þetta er fjallað í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 í kvöld.

Með hjálp náttúruefna gátu Íslendingar til forna töfrað fram litadýrð í lopabandið. Og það er allt eins líklegt að Hallgerður langbrók hafi þurft að sækja kúahland út í fjós til að Gunnar á Hlíðarenda gæti mætt á Þingvöll í litskrúðugum skartklæðum. Hlandið var notað til að fá fram skærustu litina og þá aðferð notar Guðrún.

Kúahland gegndi lykilhlutverki í litun til forna.
Uppistaðan í lituninni eru þó jurtir sem hún finnur allt í kringum heimili sitt við Andakílsársvirkjun í Borgarfirði. Þar er hún búin að breyta bílskúrnum hjá sér í tilrauna- og sýningarstofu, sem hún nefnir Hespuhúsið, þar sem hún rannsakar og kynnir þær aðferðir sem Íslendingar notuðu í gamla daga við að lita ullina. Þátturinn er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 20.05. 

Hér eru dæmi um litadýrðina í lopabandinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×