Sport

„Málinu lokið af minni hálfu“

Kristján Hjálmarsson skrifar
Börkur Edvardsson formaður knattspyrnudeildar Vals og Jón Rúnar Halldórsson formaður knattspyrnudeildar FH.
Börkur Edvardsson formaður knattspyrnudeildar Vals og Jón Rúnar Halldórsson formaður knattspyrnudeildar FH.
Edvard Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, tekur afsökunarbeiðni sem Jón Rúnar Halldórsson formaður FH og Lúðvík Arnarsson varaformaður sendu frá sér eftir leik liðanna í gærkvöldi gilda.

„Það voru fráleit ummæli látin falla í hita leiksins í gær sem búið er að biðjast afsökunar á og þar með er málinu lokið af minni hálfu," sagði Börkur í samtali við fréttastofu.

Eins og fram kom í gær sauð upp úr eftir leik FH og Vals í Pepsi-deildinni og þurfti að stía Jóni Rúnari og Berki í sundur. Stuttu síðar fullyrtu bæði formaður og varaformaður knattspyrnudeildar FH við blaðamenn að Börkur tæki hlut af sölu leikmanna Hlíðarendaliðsins.

„Hann er eini formaðurinn sem tekur hlut (e. cut) af öllum sölum, það er hann. Vitið þið þetta ekki? Eruð þið ekki fréttamenn? Hvað eruð þið að gera?“ sagði Jón Rúnar og félagi hans hjá Fimleikafélaginu hélt áfram:

„Þessi maður tekur peninga þegar leikmaður fer frá Val. Hann gerir það, komist að því og þefið það uppi. Talið við mennina sem vita það. Það segir enginn frá þessu,“ sagði Lúðvík ósáttur.

Jón Rúnar og Lúðvík sendu frá sér tilkynningu í gær þar sem þeir báðust afsökunar á orðum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×