Innlent

Vill staðfestingu á að tölvupóstur hafi farið á rangt tölvupóstfang

Valur Grettisson skrifar
Ólafur Ólafsson og Hreiðar Már Sigurðsson í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ólafur Ólafsson og Hreiðar Már Sigurðsson í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Fyrirtaka fór fram í al-Thani málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur i dag. Verjandi Ólafs Ólafssonar, sem var einn af aðaleigendum Kaupþings, lagði fram gögn um endurupptökubeiðni og að Sérstakur saksóknari staðfesti að hann hefði sent póst á pósthólf sem Ólafur notar ekki lengur. Þá lagði hann einnig fram gögn sem sýndu fram á samstarfsverkefni al-Thani og Ólafs fyrir hrun, meðal annars í París og Íran.

Þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður, Ólafur Ólafsson einn aðaleigandi bankans, og Magús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, eru sakaðir um markaðsmisnotkun og umboðssvik með því að selja Mohammed bin Khalifa al-Thani 5% hlut í bankanum í sýndarviðskiptum rétt fyrir hrun bankans. Viðskiptin hlupu á milljörðum, en meðal annars er forstjóranum og stjórnarformanninum gefið að sök að hafa lánað al-Thani 50 milljónir dollara til eignarhaldsfélags í eigu al-Thani á Tortóla.

Fátt nýtt kom fram í fyrirtökunni en tekist var meðal annars á um það hvort fara ætti eftir enskum texta eða íslenskum þýðingum á skjölum sem fulltrúi Sérstak saksóknara lagði fram.

Aðalmeðferð málsins fer fram í byrjun nóvember og mun taka tvær vikur. Um 50 vitni hafa verið kölluð til og má búast við að málið verði umfangsmeira í sniðum en Landsdómsmálið.

Enginn af sakborningunum mætti i fyrirtökuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×