Innlent

Þurfa að vanda betur útboð á sjúkraflugi

Heimir Már Pétursson skrifar
Ráðuneytið átti í viðræðum við Landhelgisgæsluna um sjúkraflutninga en þær drógust á langinn.
Ráðuneytið átti í viðræðum við Landhelgisgæsluna um sjúkraflutninga en þær drógust á langinn.
Ríkisendurskoðun telur að velferðarráðuneytið þurfi að vanda betur til útboða á sjúkraflugi.

Skilmálar vegna útboðs á sjúkraflugi árið 2012 tóku mið af faglegum kröfum. Tímafrestir í útboðinu voru hins vegar of knappir og samningstíminn óvenjulega skammur, að mati Ríkisendurskoðunar. Þar hafi hugmyndir um að fela Landhelgisgæslunni að annast almennt sjúkraflug veruleg áhrif.

Ekki hafi þó verið metið með fullnægjandi hætti hvort sá möguleiki sé hagkvæmur eða framkvæmanlegur. Velferðarráðuneytið þurfi að móta framtíðarstefnu um sjúkraflutninga.

Ráðuneytið hafi átt í viðræðum við Landhelgisgæsluna um sjúkraflutninga en þær hafi dregist á langinn og útboð tafist. Nýr samningur átti að taka gildi 1. janúar 2013 en útboðið var ekki auglýst fyrr en í lok september 2012 og tilboð ekki opnuð fyrr en um miðjan desember.

Að mati Ríkisendurskoðunar var óraunhæft að ætla að nýr aðili gæti tekið við þjónustunni með svo skömmum fyrirvara.

Stofnunin hvetur ráðuneytið til að vanda til útboða og tryggja að útboðsferli og samningstími stuðli að jafnræði meðal mögulegra bjóðenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×