Innlent

Gillz kemur ekki fram á Ljósanótt

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Egill Einarsson mun ekki koma fram á Ljósanótt í Reykjanesbæ.
Egill Einarsson mun ekki koma fram á Ljósanótt í Reykjanesbæ.
Egill „Gillz“ Einarsson mun ekki koma fram á Ljósnæturballi sem fram fer í Stapanum í Reykjanesbæ næstkomandi föstudag. Í tilkynningu frá Agli kemur fram að hann sé tvíbókaður og muni því ekki koma fram á ballinu sem er fyrir unglinga í 8.-10. bekk.

„Ég þarf því miður að tilkynna ykkur það að ég er tvíbókaður þetta kvöld á föstudaginn og kemst ekki. En það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta mun verða besta ball allra tíma, því ég hef fengið engan annan en meistara Frikka Dór til að mæta í staðinn fyrir mig,“ segir Egill í tilkynningu. Ekki kemur fram hvar Egill er einnig bókaður þetta kvöld.

Aðrir sem koma fram á viðburðinum eru auk Friðriks Dórs þeir Sverrir Bergmann og Auðunn Blöndal. Viðburðarfyrirtækið Agent.is, sem er í eigu Ólafs Geirs Jónssonar, stendur fyrir viðburðinum. Að sögn Valgerðar Guðmundsdóttur, menningarfulltrúa Reykjanesbæjar, þá stendur Reykjanesbær ekki fyrir viðburðinum og bendir á að Egill hafi ekki verið hluti af þeirra dagskrá.

Egill hefur verið talsvert í fréttum að undanförnu eftir að Guðný Rós Vilhjálmsdóttir greindi frá því í viðtali við Nýtt líf, sem kom út í síðustu viku, hvers vegna hún kærði Egil og unnustu hans, Guðríði Jónsdóttur, fyrir nauðgun. Málið, sem fékk mikla fjölmiðlaumfjöllun á sínum tíma, var rannsakað hjá lögreglunni. Það var svo sent ríkissaksóknara sem fyrirskipaði ítarlegri rannsókn. Að endingu felldi saksóknari málið niður. Egill kærði Guðnýju Rós í kjölfarið fyrir rangar sakargiftir en málið var fellt niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×