Innlent

Leitar hálfbróður síns á Íslandi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Jessica Decap biður Íslendinga um hjálp við að finna hálfbróður sinn
Jessica Decap biður Íslendinga um hjálp við að finna hálfbróður sinn Mynd/Jessica Decap
Jessica Decap er 35 ára frönsk kona sem leitar að íslenskum hálfbróður sínum. Þegar Jessica var 15 ára fékk hún að vita hjá föður sínum að hún ætti hálfbróður á Íslandi. Fyrir utan þetta eina skipti hefur tilvera bróður hennar ekki verið rædd á heimilinu.

„Nú tuttugu árum síðar fékk ég sterka tilfinningu fyrir að ég ætti að leita hans og finna hann. Nú vantar mig hjálp frá Íslendingum því ég hef ekki miklar upplýsingar í höndunum,“ segir Jessica í samtali við fréttastofu Vísis. 

Pabbi Jessicu dvaldi á Íslandi 1968 þegar hann vann fyrir rafmagnsveituna við uppsetningu á rafmagnsstaurum. Hann hitti íslenska konu, sem Jessica heldur að heiti Gugga, sem vann á Póstinum í Reykjavík. Seinna um árið eftir að Jean-Claude var farinn aftur til síns heima fékk hann skeyti frá konunni um fæðingu sonar síns en hann gekkst aldrei við honum. 

„Það er að mínu frumkvæði sem ég leita bróður míns enda er pabbi mjög lokaður maður. Pabbi er sjötugur og ég veit að innst inni langar hann mikið að hitta þennan son sinn,“ segir Jessica.

Það eina sem Jessica veit um bróður sinn er það sem stóð í skeytinu sem faðir hennar fékk sent fyrir 45 árum. „Þar stendur að sonurinn sé langur eins og hann. Faðir minn er mjög hávaxinn, rúmlega 190 cm á hæð.“

Jessica yrði afar þakklát fyrir upplýsingar um bróður sinn eða konuna sem hún kallar Guggu. Þeir sem geta veitt upplýsingar eru beðnir um að tölvupósti á netfangið jessica.decap@hotmail.fr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×