Innlent

„Ágætt að hið rétta sé komið í ljós“ - lykilvitni dregur framburð til baka

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Sveinn Andri verjandi Annþórs segir að það verði að koma í ljós hvort nýr framburður Bergs Más hafi áhrif á niðurstöðu Hæstaréttar.
Sveinn Andri verjandi Annþórs segir að það verði að koma í ljós hvort nýr framburður Bergs Más hafi áhrif á niðurstöðu Hæstaréttar. mynd/365
„Það verður að koma í ljós hvort að þetta dugi til þess að hnekkja að einhverju leyti dómnum,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Annþórs Karlssonar.

Eins og fram kom í DV í gær hefur Bergur Már Ágústsson eitt af lykilvitnum í máli gegn Annþóri og Berki Birgissyni dregið framburð sinn til baka og segist hafa borið ljúgvitni fyrir dómi.

„Það er ágætt að hið rétta sé komið í ljós og þetta er eitt af fjölmörgum atriðum sem kemur til skoðunar við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Þetta styrkir án nokkur vafa málatilbúnað Annþórs og Barkar,“ segir Sveinn Andri.

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness, sem féll 20. desember í fyrra, er byggt á þeim framburði Bergs Más að Annþór hafi í heimildarleysi hleypt sjö mönnum inn í íbúð Bergs Más í Háholti. Þar veittust mennirnir að Bergi og þremur öðrum með því að slá þá ítrekað víðs vegar um líkama og í höfuð með hættulegum vopnum og bareflum, þar á meðal golfkylfum, sleggju, kylfum, handlóðum og tréprikum.

Sveinn Andri hitti Berg Má á Litla Hrauni fyrir stuttu þar sem Bergur Már tjáði honum að hann hefði verið undir áhrifum fíkniefna þegar hann gaf skýrslu fyrir héraðsdómi við aðalmeðferð málsins.

„Ég sendi því ríkissaksóknara erindi þar sem ég bað um að það yrði tekin ný skýrsla af Bergi Má,“ segir Sveinn Andri.

Að sögn Sveins Andra kom fram í skýrslutökunni að Annþór hefði ekki haft sig í frammi að neinu leyti í íbúðinni.

Samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms sem byggir á fyrri framburði Bergs Más er Annþór sagður vera skipuleggjandi árásarinnar. Annþór og Börkur voru dæmdir ásamt átta öðrum fyrir að líkamsárásir gegn Bergi Má og fleiri mönnum auk annarra brota. Annþór fékk sjö ára fangelsisdóm og Börkur sex ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×