Fótbolti

Súr með að missa starfið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hope Powell.
Hope Powell. Mynd/NordicPhotos/Getty
Hope Powell, fyrrum þjálfari enska kvennalandsliðsins í fótbolta, var mjög vonsvikin með að missa starfið en hún var rekin eftir fimmtán ár í brúnni.

„Ég var þarna í fimmtán ár og naut starfsins ákaflega mikið. Ég er að ná áttum og verð bara að halda áfram með mitt líf," sagði hún í viðtalið við morgunútvarp BBC.

„Þeir vildu fá ferska strauma inn og ég verð að virða það. Mitt sérsvið er fótbolti og vonandi fæ ég ný tækifæri í framtíðinni," sagði Hope Powell.

Hope Powell er 46 ára gömul en hún missti starfið eftir að enska landsliðið komst ekki upp úr sínum riðli á EM í Svíþjóð í sumar.

„Ég bjóst ekki við þessu en svona er þetta og þessa vegna er ég hér. Ég er samt ekki í stöðu til að tjá mig um gömlu yfirmenn mína. Það er trúnaðarmál og ég vil ekki ræða samskipti við þá," sagði Powell.

Hope Powell tók við enska landsliðinu 1998 og stjórnaði einnig breska landsliðinu á Ólympíuleikunum í London. Hún hefur verið með hæstu mögulegu þjálfaragráðu frá árinu 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×