Innlent

Sigmundi Davíð færð gjöf frá beikonbræðralagi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð tók á móti gjöf frá Bandaríska beikonbræðralaginu.
Sigmundur Davíð tók á móti gjöf frá Bandaríska beikonbræðralaginu.
Bandaríska beikonbræðralagið færði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, gjöf í dag frá Terry Branstad fylkisstjóra Iowa.

Verið er að endurgjalda gjöf Íslenska beikonbræðralagsins sem komu færandi hendi á beikonhátíð ytra síðastliðinn febrúar.

Þessi viðburður markar skemmtilegt upphaf á Reykjavík beikon festival sem haldin verður hátíðleg í þriðja sinn á morgun.

Beikonilmurinn mun svífa yfir Skólavörðustíginn kl. 14-17 á morgun þar sem boðið verður upp á beikon í matartjöldum og átta veitingastaðir selja beikonrétti á 250 krónur í matarkofum.

Einnig verður veitingabás sérstaklega ætlaður börnum ásamt leiktækjum og hoppukastölum á Skólavörðustígnum.

Yfirskrift hátíðarinnar er „Beikon er hjartans mál“ og mun allur ágóði af matsölunni renna til tækjakaupa á hjartadeild Landspítalans.

Í fréttatilkynningu frá skipuleggendum hátíðarinnar segir: „Beikon er eins og ástin, það þrá það allir og þú átt það skilið.“

Vekja skal athygli á að Skólavörðustígurinn verður lokaður fyrir bílaumferð á morgun vegna hátíðarinnar klukkan 9-18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×