Innlent

Er boðlegt að vera með tvíhliða refsikerfi í samfélaginu?

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Hildur Sverrisdóttir telur að Háskóli Íslands skuldi frekari skýringar á málefnum Jóns Baldvins.
Hildur Sverrisdóttir telur að Háskóli Íslands skuldi frekari skýringar á málefnum Jóns Baldvins. Mynd/Fréttablaðið
„Í þessu tiltekna máli var ekki framið kynferðisafbrot samkvæmt þeim ramma sem við höfum sett okkur utan um kynferðisbrot. Málið var látið niður falla. Ef samfélagið vill halda áfram að refsa fyrir eitthvað sem við erum búin að koma okkur saman um að sé ekki refsivert, þá á að beina þeim spjótum til löggjafans,“ segir Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Hildur var gestur í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun þar sem hún ásamt Erni Úlfari Sævarssyni ræddu um málefni Jóns Baldvins Hannibalssonar og Háskóla Íslands. Skólinn ákvað að draga til baka boð sitt til Jóns Baldvins um að hann kæmi að kennslu sem gestakennari í námskeiði við stjórnmálafræðideild.

Beiðnin var afturkölluð þar sem hún sætti gagnrýni femínista á vefsíðunni Knúz.is vegna ósæmilegra bréfaskrifta Jóns til ungrar frænku eiginkonu sinnar þegar hann gegndi enn embætti utanríkisráðherra. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, bað Jón Baldvin í kjölfarið afsökunar á málinu.

Hildur velti upp þeirri spurningu hvort það sé boðlegt að samfélagið taki upp á því hjá sjálfu sér að refsa fyrir það sem það álítur vera brot. „Er boðlegt að við höldum áfram að refsa fólki eða taka upp á því sjálf að refsa fólki, og hafa einhvers konar tvíhliða refsikerfi í samfélaginu? Það er í rauninni mannréttindabrot,“ segir Hildur.

„Aðalatriðið í þessu máli eru viðbrög Háskólans og rökin í þessu máli sem eru vægast sagt ósannfærandi. Ég held að Háskólinn skuldi betri skýringar. Þetta er prýðilegt dæmi fyrir mannréttindakúrs í lögfræði eða heimspeki hvort þetta sé boðlegt. Hingað til höfum verið verið með kerfi sem er betrunarvist. Þú tekur út þinn dóm, slegið á puttana á þér, skammaður og færð aftur að taka þátt í samfélaginu. En er það samt háð einhverjum takmörkununum? Ertu samt hálfur maður?“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×