Innlent

Nýr lifandi fræðsluvefur Regnbogabarna í loftið

Heimir Már Pétursson skrifar
„Við erum nú þegar með langan lista af fyrirlesurum og fræðingum sem bíða þess að komast upp á svið og flytja sína fyrirlestra," segir Stefán Karl.
„Við erum nú þegar með langan lista af fyrirlesurum og fræðingum sem bíða þess að komast upp á svið og flytja sína fyrirlestra," segir Stefán Karl. Mynd/Daníel
Regnbogabörn opnuðu í dag forvarna-og fræðsluvefinn Fyrirlestrar.is, verkefni sem byggir á starfi samtakanna frá stofnun árið 2002. Markmið Regnbogabarna hafa alltaf verið að veita upplýsingar, fræðslu og að hvetja til umræðu í samfélaginu í því augnamiði að byggja upplýstara samfélag.

Stefán Karl  Stefánsson formaður Regnbogabarna segir að nú þegar séu yfir 40 fyrirlestrar af ólíku tagi á vefnum sem allir eigi það sameiginlegt að fjalla um samfélagsmál sem snerti alla.

„Þessi vefur mun t.d. koma að gagni við kennslu, fyrst og fremst til að bæta skólamenninguna.  Það sem ég á við með því er að vefurinn mun nýtast vel til að fræða foreldra, nemendur og alla þá sem koma að skólasamfélaginu um margbreytileika mannlífsins,“ segir Stefán Karl.

Fræðslan einskorðist ekki við eineltismál heldur sé þar að finna fræðslu um jafn ólíka málaflokka og jafnrétti kynjanna, uppeldi, ofbeldi á heimilum, Asberger, ADHD, áföll og streitu og geðrækt svo eitthvað sé nefnt. Stefnt sé að því að fyrirlestrarnir, sem allir eru lifandi og teknir upp af Saga Film, verði orðnir 300 árið 2016 og það sé enginn skortur á fyrirlesurum.

„Við erum nú þegar með langan lista af fyrirlesurum og fræðingum sem bíða þess að komast upp á svið og flytja sína fyrirlestra og við erum að undirbúa að fara jafnvel strax núna í október að fara í upptökur á fimmtán nýjum fyrirlestrum. En á næsta ári er áætlað að við tökum upp sextíu fyrirlestra til viðbótar,“ segir Stefán Karl.

Unnið sé að því að texta alla fyrirlestrana þannig að þeir verði aðgengilegir fólki sem talar ekki íslensku og opni um leið glugga út í heim fyrir þá fræðimenn sem flytji fyrirlestrana í sjálfboðavinnu.

Vefurinn verður rekinn með styrkjum og frjálsum framlögum og sjá Regnbogabörn um alla framkvæmd og utanumhald.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×