Fótbolti

Forföll í bandaríska landsliðinu - fær Aron tækifærið?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannsson.
Aron Jóhannsson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Jürgen Klinsmann, þjálfari bandaríska landsliðsins í fótbolta hefur kallað á fjóra leikmenn inn í hópinn sinn fyrir leikinn á móti Mexíkó á þriðjudaginn. Ástæðan eru leikbönn og meiðsli leikmanna.

Framherjinn Jozy Altidore og varnarmennirnir Matt Besler og Geoff Cameron taka út leikbann í leiknum og miðjumaðurinn Michael Bradley er meiddur á ökkla.

Við þetta bætist að bandaríska liðið tapaði 1-3 á móti Kosta Ríka á útivelli á föstudaginn og því kannski ástæða til að breyta um í sóknarleik bandaríska liðsins. Altidore var reyndar óvænt á bekknum í þeim leik.

Klinsmann kallar ekki á framherja inn í hópinn því inn koma varnarmaðurinn Clarence Goodson og miðjumennirnir Joe Corona, Brad Davis og Jose Torres.

Nú er að sjá hvort Aron Jóhannsson fái sitt fyrsta tækifæri í byrjunarliðinu en hann kom inn á í uppbótartíma á móti Kosta Ríka. Aron hefur komið inn á sem varamaður í fyrstu tveimur landsleikjum sínum fyrir Bandaríkin.

Kosta Ríka komst upp fyrir Bandaríkin með sigrinum en bandaríska liðið getur stigið stórt skref í átt að því að komast á HM með því að vinna Mexíkó á heimavelli sínum á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×