Fótbolti

Sjúkraþjálfari Þjóðverja meiddist í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Klaus Eder er hér studdur af velli.
Klaus Eder er hér studdur af velli. Mynd/NordicPhotos/Getty
Klaus Eder, sjúkraþjálfari þýska knattspyrnulandsliðsins, varð fyrir tveimur meiðslum þegar hann ætlaði að huga að leikmanni þýska liðsins í 3-0 sigri á Austurríki á föstudagskvöldið en leikurinn var í undankeppni HM í Brasiliu 2014.

Eder hljóp inn á völlinn eftir að Marcel Schmelzer meiddist en það gekk ekki betur en svo að hann reif vöðva í vinstri fæti og datt um leið og puttabrotnaði í fallinu.

Klaus Eder er sextugur og hefur unnið hjá þýska knattspyrnusambandinu í 25 ár. „Nú þarf ég að gera æfingarnar af samviskusemi eins og ég predika alltaf til leikmannanna," sagði Klaus Eder í viðtali á heimasíðu sambandsins.

„Það hjálpaði mér mikið að fá góðan stuðning frá leikmönnum. Philipp Lahm náði í ís til kæla og þeir Mesut Özil og Miroslav Klose hjálpuðu mér útaf vellinum," sagði Eder.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×