Innlent

Fólk hvatt til að festa trampólín og garðhúsgögn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Búast má við mjög snörpum vindhviðum um allt land.
Búast má við mjög snörpum vindhviðum um allt land. Mynd/Anton Brink
Búast á við snörpum vindhviðum á öllu landinu. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands verður veðrið verst við suðurströndina í kvöld, færist yfir á norðurströndina í nótt og austurhluta landsins á morgun.

Hætta er á að lausir munir fari á hliðina og því er fólk hvatt til að huga að til dæmis trampólínum og garðhúsgögnum. Einnig er mælt með að vera ekki á ferðinni í kvöld og nótt að ástæðulausu um norðurland en þar er spáð mikilli rigningu og jafnvel snjókomu.

Nú þegar er meðalvindur á Holtavörðuheiði 18 m/sek og hviður fara upp í 27 m/sek. Þar gæti færð orðið slæm í kvöld og í nótt.

Samkvæmt lögreglunni á Blönduósi er þó enn rólegt veður í bænum og sýnist mönnum að bændum takist að klára að reka fé í réttir áður en óveðrið skellur á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×