Lífið

Yfirgangur í meðeigendum mínum var slíkur að á mér var brotið

Ellý Ármanns skrifar
Myndir/einkasöfn
Bryndís Gyða Michelsen, Kristrún Ösp Barkardóttir og Kidda Svarfdal snéru bökum saman fyrir ári og opnuðu nýjan vef þar sem þær skrifuðu allt á milli himins og jarðar. Þá helst um barneignir, förðun, tísku, slúðrið og persónulegar hugleiðingar.

Í gær sendi Kristrún Ösp frá sér tilkynningu þar sem hún þakkar fyrir samstarfið þar sem hún segist ekki kæra sig um yfirgang meðeigenda sinna á Hún.is. Kristrún kýs að tjá sig ekki frekar um málið.

Kristrún Ösp er hætt á Hún.is.Mynd/einkasafn
Tilkynning Kristrúnar sem hún birti á Facebook síðunni sinni í gær:

„Ég hef sagt skilið við Hún.is en það kom upp í síðustu viku. Minn hlutur verður seldur þegar samkomulag hefur verið komið á hreint. Ég vil þakka öllum þeim sem lásu skrif mín og fylgdust með því sem ég var að gera á vefnum. Ég hef lært mikið á þessum tíma frá því að við stofnuðum Hún.is og mun það vonandi nýtast mér vel. Ég hef öðlast meiri skilning á viðskiptum en velgengni stígur fólki oft til höfuðs.

Ég tel það ekki þess virði að standa frammi fyrir slíkum yfirgangi og græðgi, fyrir lítinn vef eins og Hún.is. Það er ekki líklegt til árangurs þegar viðskiptafélagar vilja frekar takast á en ná samstöðu um góðan rekstur og velgengni.

Yfirgangur í meðeigendum mínum var slíkur að á mér var brotið hluthafasamkomulag með því að loka ritstjórnaraðgang mínum á Hún.is, mínum eigin vef, vegna fráleitra hugmynda þeirra um að ég gæfi eftir af eignahlut mínum, þeim til góða, samkvæmt þeirra einhliða mati, án þess að um slíkt væri samið. 

Réttsýni og heiðarleiki eru mikilvæg í viðskiptum og lykill að velgengni í framtíðinni; það er ég handviss um. 

Þrátt fyrir allt þakka ég fyrir samstarfið, Gísli Kr, Bryndís Gyða og Kidda Svarfdal. Ég vildi að sjálfsögðu láta ykkur vita með gang mála því ég veit að margir hér hafa fylgst vel með mér á síðunni og þakka fyrir það. Ég hlakka til að takast á við ný og spennandi verkefni."





Kidda Svarfdal og Bryndís Gyða Michelsen.
Hefur gengið á ýmsu

„Það hefur gengið á ýmsu síðan við opnuðum vefinn og við þurft að takast á við marga krefjandi hluti. Samstarfið gekk því miður ekki upp en við óskum Kristrúnu alls hins besta og þökkum henni fyrir samstarfið," sagði Kidda spurð um ákvörðun Kristrúnar að hætta á Hún.is.

Hún.is - skjáskot.
Fagna í september 

„Við fögnum í september ársafmæli síðunnar og verður afmælismánuðurinn fullur af skemmtilegum uppákomum og við erum orðnar mjög spenntar yfir því," sagði Kidda jafnframt.

Hún.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.