Innlent

Bændur á leið með tugþúsundir fjár til byggða

Heimir Már Pétursson skrifar
Bændur á Norðurlandi eru flestir komnir á fjöll að smala fé sínu til byggða áður en óveður skellur á á föstudag og laugardag samkvæmt veðurspá. Sæþór Gunnsteinsson gagnaforingi er á fjalli í blíðskapar veðri og segir að vel gangi að smala fénu og lofar að lömbin mun bragðast vel þrátt fyrir styttri tíma á afrétti en venja er.

Veðurspá fyrir Norðurland gerir enn ráð fyrir vonskuveðri á föstudag og laugardag og því héldu bændur til fjalla í gær og í morgun til að sækja tugþúsundir fjár til byggða, minnugir hryllingsins í byrjun september í fyrra þegar um tíu þúsund fjár urðu úti í miklum norðanhvelli.

Sæþór Gunnsteinsson gagnaforingi fyrir svæðið allt frá Mývatnssveit austur í Kelduhverfi er kominn til fjalla með sína menn og var staddur á Reykjaheiði skömmu fyrir hádegi.

„Það er skrýtið að hugsa til þess að hér sé að koma óveður, því hér er sól og fimmtán stiga hiti eins og um hásumar og hér er margt fé og fallegt,“ segir Sæþór. Mesta nuddið í dag verði að koma fénu af stað í svona góðu veðri. „En þetta eru öfgarnar á Íslandi,“ bætti hann við.

Sæþór segir að það hafi verið rétt ákvörðun að flýta göngum í ljósi þess sem gerðist í fyrra þótt skrýtið sé að smala í ágúst. Menn hafi ekki gert það áður. En veðurspáin sé enn slæm. Á svæði Sæþórs reka menn um fimm þúsund fjár til byggða og hann hefur verið í sambandi við sauðfjárbændur víða um Norðurland.

„Já, við þekkjumst dálítið innbirgðis sauðfjárbændur og erum búnir að heyra hver í öðrum. Ég held að að heilt yfir á Norðurlandi, allt frá Hrútafirði austur í Vopnafjörð séu menn að smala og tryggja sig því það er alveg klárt að menn vilja ekki taka neina áhættu,“ segir Sæþór.

Það sé mikið undir og það að skipti í sjálfu sér ekki öllu máli hvort smalað sé vikunni fyrr eða seinna. Það komi hvorki niður á fallþunga né bragðinu á lambinu að fá ekki að bragða á lynginu aðeins lengur.

„Nei, við slátrum bara fyrir. Landið er óhemju fallegt í dag. Hér er birki og blágresi og allt sem finna má í íslenskri náttúru og við getum lofað því að lambakjörið verður afbragðs gott í haust,“ segir hann. Sveitarómantíkin blómstri nú á fjöllum.

„Já, aldrei verið meiri en nákvæmlega í þessum töluðum orðum. Þetta er bara eins og það getur best orðið,“ sagði Sæþór Gunnsteinsson gagnaforingi staddur upp á Reykjaheiði í smölun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×