Innlent

Óveður í aðsigi: "Nú eru menn á tánum"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Ekki er búist við eins slæmu veðri og skall á í september í fyrra, en ráðlegt er þó að vera við öllu búin því enn er óvissa í kortunum.
Ekki er búist við eins slæmu veðri og skall á í september í fyrra, en ráðlegt er þó að vera við öllu búin því enn er óvissa í kortunum.
Enn ríkir óvissa um hvar lægðarmiðjan verður síðdegis á morgun og hefur það áhrif á hvar veður verður verst, en full ástæða er fyrir fólk að vera við öllu búið, ekki síst á norðan- og vestanverðu landinu.

Að ýmsu er að hyggja þegar óveður er í aðsigi og eins og sjá má á myndum í meðfylgjandi frétt, voru íbúar Sauðárkróks í óða önn við að klára sumarverkin í dag, enda kannski síðustu forvöð. Norðan og vestan til hafa bændur víða flýtt smölun.

 Óli Þór Árnason veðurfræðingur segir að búast megi við snjókomu og slyddu á fjallvegum á norðvesturlandi. Þá gæti veðrið minnt vel á sig á Snæfellsnesi og á höfuðborgarsvæðinu. „Það verður býsna hvasst, upp að og yfir stormstyrk og hér á höfuðborgarsvæðinu má reikna með vindi upp að 15 til 18 metrum á sekúndu seinnipartinn á morgun. Það er því full ástæða til að fólk hafi varann á sér,“ segir hann.

Óli biður fólk að ferðast ekki að nauðsynjalausu og segir að búast megi við miklum vatnavöxtum. Þá ætti að tryggja lausa hluti í görðum og annars staðar. Hann á þó ekki von á eins slæmu veðri og skall á í september í fyrra og olli miklum búsifjum. „Menn áttu ekki von á að veðrið gæti orðið svona vont svona snemma um haustið, en nú eru menn á tánum og taka enga áhættu og ég held að það sé bara skynsamlegt.“

Hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra var fundað stíft í dag og þar verður áfram fylgst með framvindunni í samvinnu við Veðurstofuna. Nokkuð er af ferðamönnum á hálendinu en Hálendisvaktin og aðilar í ferðaþjónustu hafa komið skilaboðum til margra um veðurhorfur. Almenningur getur nálgast upplýsingar á netsíðu Almannavarna og Facebooksíðu þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×