Innlent

Húsnæðiseigendur mala gull á Höfn

Sjávarútvegurinn skapar stöðugleikann sem síðan hefur verið hlaðið utan á svo að nú eru Hornfirðingar ekki á flæðiskeri staddir nema marga vantar húsnæði.
Sjávarútvegurinn skapar stöðugleikann sem síðan hefur verið hlaðið utan á svo að nú eru Hornfirðingar ekki á flæðiskeri staddir nema marga vantar húsnæði. Anton
Á milli tuttugu og þrjátíu manns eru á biðlista eftir leiguhúsnæði á Höfn í Hornafirði, að sögn Hjalta Þórs Vignissonar bæjarstjóra. Sex íbúðir hafa verið byggðar á síðustu misserum en það sér varla högg á vatni.

Þegar háannatíminn í ferðamennskunni stendur yfir verður húsnæðisþörfin enn brýnni, en nokkuð er um það að einbýlishús og íbúðir séu nýttar til gistingar eða leigu fyrir ferðamenn.



„Hér er náttúrulega allt fullt af ferðamönnum þannig að maður skilur það að íbúarnir vilji nýta sér þennan markað,“ segir Hjalti Þór. Hann, eins og fleiri Hornfirðingar sem Fréttablaðið ræddi við, segist vita til þess að nokkrir sem hafa leigt yfir veturinn hafi þurft að finna sér annan stað yfir sumar­tímann þar sem húsnæðið sem þeir leigðu sé nýtt í ferðamennskuna.



Þar að auki er leiguverð nokkuð hátt á Hornafirði miðað við annars staðar á landsbyggðinni. Magnhildur Gísladóttir, verkefnastjóri um málefni nýrra íbúa hjá bæjarfélaginu, segist þekkja þess dæmi að leiga fyrir íbúð og einbýlishús geti verið um 150 þúsund krónur. Hjalti Þór telur að leiguverð sé á bilinu 1.300 til 1.500 á fermetrann. Það er álíka og leiguverð á Akureyri, samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands. Þar kemur einnig fram að meðalleiguverð á Austurlandi sé á bilinu 847 til 1.173 krónur, svo Hornfirðingar standa vel í hreppametingnum.



„Þetta gerir mörgum erlendum íbúum erfitt fyrir og ég veit að margir þeirra eru í mun minna húsnæði en þeir ættu að vera svo hægt væri að búa með góðu móti,“ Magnhildur.

Aðspurð hvað valdi eftirsókninni segja þau Hjalti og Magnhildur að sjávarútvegurinn sé stöðugur á svæðinu en svo hafi Hornfirðingar hugað að því að ýta undir fjölbreytt atvinnulíf á staðnum. „Meðan öll eggin voru sett í sömu körfuna í góðærinu vorum við að leita og hlúa að eggjum víða og það er að unga vel úr þeim núna,“ segir Magnhildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×