Innlent

Óttast um framtíð íslensku landnámshænunnar

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mikill ótti er meðal  þeirra sem vilja vernda stofn  íslensku landsnámshænunnar að verið sé  að stefna stofninum í tvísýnu með  blöndun við Brahma-hænsni af  asískum uppruna. Hröð útbreiðsla  er í Evrópu á slíkum hænsnum  sem eru með fiðraða fætur, en  genið sem stýrir því er ríkjandi í  stofninum. Verulega er farið að bera á útbreiðslu á slíkum hænsum hér á landi.

Íslenska landnámshænan hefur á síðustu árum átt auknum vinsældum að fagna hjá fjölmörgu áhugafólki um hænsnarækt enda ólíklegasta fólk komið með hænur í garðinn hjá sér. Þá eru margir bændur að rækta hænur samhliða búskapnum.

Nú eru hins vegar blikur á lofti því blöndun af  hænum af asískum uppruna er komin inn í íslenska hænsnastofninn, sem þykir alls ekki gott. Ólafur Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, sem var að slá og dytta að bústað sínum í Ölfusi í dag þekkir vel til málsins.



„Þetta er ríkjandi eiginleiki, sennilega kominn úr asískum hænsnum upprunalega. Við höfum kannað þetta mjög vel, bæði hér innanlands og á Norðurlöndunum, og það er ekkert  sem bendir til þess að þessir fiðruðu fætur eigi að vera í þessum stofni. Fætur á íslensku hænunum eiga að vera lausir við þessa fjaðraskúfa,“ segir Ólafur.

Meginmarkmið Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna er að  halda stofninum hreinum, heilbrigðum og litfögrum.



„Aðalatriðið er að fólk sem er að kaupa sér unga gæti þess að kaupa ekki köttinn í sekknum. Það er mikil hætta á ferðum þar sem þetta er ríkjandi eiginleiki og berst út eins og eldur í sinu. Landnámshænustofninn er lítill og hann ber að varðveita,“ segir Ólafur jafnframt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×