Fótbolti

334 milljónir bíða FH fyrir sigur á Austria Wien

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
FH-ingar fagna marki Björns Daníels Sverrissonar í gær.
FH-ingar fagna marki Björns Daníels Sverrissonar í gær. Mynd/Stefán
FH tryggði sér í gær öruggar tekjur upp á rúmar 50 milljónir króna en félagið getur rúmlega sexfaldað þá upphæð ef liðið slær austurrísku meistarana í Austria Wien úr leik í næstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Knattspyrnusamband Evrópu greiðir liðum sem komast í þriðju umferð forkeppninnar 200 þúsund evrur hvert eða 31,8 milljónir króna.

Sigurliðið í rimmunni kemst áfram í umspilsumferð fyrir riðlakeppni Meistaradeild Evrópu en öll lið sem komast þangað fá 2,1 milljón evra í þátttökubónus - 333,9 milljónir króna.

Tapi FH hins vegar fyrir Austria Wien fer liðið í umspil fyrir riðlakeppni Evrópudeildar UEFA og þar er þátttökubónusinn öllu minni eða 130 þúsund evrur - 20,7 milljónir króna.

FH tryggði sér því með sigrinum á litháíska liðinu FK Ekranas minnst 52,5 milljónir króna í tekjur en fjárhagslegur ávinningur af því að slá austurrísku meistarana úr keppni yrði ólíkur því sem íslensk félagslið hafa kynnst í gegnum tíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×