Fótbolti

Auðvelt hjá Bæjurum gegn Barca

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Pep Guardiola leiddi sína menn í Bayern München til 2-0 sigurs gegn fyrrum lærisveinum sínum í Barcelona í æfingaleik í München í dag.

Bæjarar stilltu upp nautserku liði á meðan gestirnir frá Barcelona tefldu fram vængbrotnu liði. Allir leikmenn Barcelona sem spiluðu í Álfukeppninni í Brasilíu í júní eru ekki enn mættir til æfingu og voru því ekki til taks hjá gestunum. Eru þá meðtaldir allir landsliðsmenn Spánverja auk Brasilíumannanna Neymar og Dani Alves.

Þjóðverjarnir komust yfir á 14. mínútu leiksins með skallamarki Philipp Lahm eftir sendingu Franck Ribery. Bæjarar réðu lögum og lofum í leiknum og voru gestirnir heppnir að vera aðeins marki undir í hálfleik.

Lionel Messi og félagar hans tíu fóru af velli í hálfleik og inn á komu liðsmenn b-liðs félagsins. Leikmennirnir, sem eru allir á aldrinum 20-22 ára, stóðu í Bæjurum og héldu út fram á 87. mínútu þegar Mario Mandžukić skoraði af stuttu færi.

Bæjarar tóku við bikar í leikslok en í fyrsta skipti var spilað um Uli Höness bikarinn. Allur ágóði af leiknum var veittur til góðgerðamála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×