Fótbolti

Leik lokið: KR úr leik eftir 3-1 tap í Belgíu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr fyrri viðureign liðanna á KR-vellinum.
Úr fyrri viðureign liðanna á KR-vellinum. Mynd/Arnþór
Karlalið KR í knattspyrnu beið lægri hlut 3-1 í síðari viðureign sinni gegn Standard Liege í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í Belgíu í kvöld.

KR-ingar töpuðu fyrri leiknum heima 3-1 og áttu því litla möguleika fyrir seinni leikinn í Belgíu. Rúnar Alex Rúnarsson stóð á milli stanganna hjá KR-ingum og Kjartan Henry Finnbogason, Guðmundur Reynir Gunnarsson og Haukur Heiðar Hauksson hvíldu ásamt markverðinum Hannesi Þór Halldórssyni.

Gary Martin fékk dauðafæri til að koma KR-ingum yfir um miðjan fyrri hálfleikinn en skot hans af stuttu færi fór framhjá markinu. Tveimur mínútum síðar tóku heimamenn forystuna og leiddu 1-0 í hálfleik.

Standard menn bættu við marki um miðjan síðari hálfleikinn en KR-ingar svöruðu um hæl. Emil Atlason skoraði þá eftir góðan undirbúning Óskars Arnar Haukssonar. Heimamenn svöruðu hins vegar jafnharðan og tryggðu sér sannfærandi 3-1 sigur.

Standard vann sigur í einvíginu samanlagt 6-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×