Skoðun

Druslan stóð vel til höggsins

Kristinn Schram skrifar
Einhver elsti skráði íslenski brandarinn er sagður í Fóstbræðra sögu. Þeir sem hafa kynnt sér það sem kallað er íslenzk fyndni vænta kannski ekki mikils. En þessi er svolítið fyndinn. Sagt er frá því þegar Þorgeir Hávarsson, fyrir einum þúsund árum, drap blásaklausan mann þar sem hann studdist fram á staf sinn. Skýring Þorgeirs á þessu var einföld: Hann stóð svo vel til höggsins.

Ég segi að þetta sé brandari en hvort hann var það í ritunartíma vitum við svo sem ekki. Að minnsta kosti finnst okkur mörgum þetta fyndið í dag enda fráleitt með öllu að færa ábyrgð á morði yfir á þann myrta með þeim rökum að eitthvað í fasi hans hafi boðið upp á það. Tilgangsleysi ódæðisins er síðan svo algjört að lesandanum er komið í opna skjöldu (afsakið vígamyndmálið). Valdníðslan er slík að þessi þúsaldardjókur getur ekki annað en kitlað hláturtaugarnar svo losa megi um óþægilega spennuhnútinn í maganum. Kannski býr einhver almenn siðgæðisvitund að baki.

En sú vitund er reyndar ekki almennari en svo að enn getur helmingur okkar, og gott betur, ekki frjálst um höfuð strokið án þess að eiga von á því að brotið sé á okkur með sömu rökum. Á það erum við reglulega minnt þegar fórnarlömbum kynferðisglæpa, sérstaklega konum, er borið á brýn að hafa kallað yfir sig ofbeldið með klæðnaði eða framkomu. Þessi súrrealíska valdníðsla ætti í raun að kalla fram sama taugaveiklunarhláturinn og tilsvar Þorgeirs ef ekki væri fyrir þann almenna og hrollkalda veruleika sem býr að baki.

Sjaldan er hann napurlegri en kringum útihátíðarnar sem nú fara í hönd. Þar skáka ofbeldismenn í skjóli slíkra viðhorfa. Í kjölfarið er svo samið um hvaða fjöldi tilkynntra nauðgana sé viðsættanlegur til að þjóðinni megi gera heyrinkunnugt að almennt hafi hátíðirnar farið vel fram. Slíka nauðgunarmenningu er ekki hægt að hlæja af sér frekar en óhugnaðinn sem af henni hlýst. Víðtækra samfélagssbreytinga er þörf svo tryggja megi að ábyrgð glæpa liggi hjá gerendum. Með Druslugöngunni tökum við skref í þá átt.

Druslugangan verður farin í þriðja sinn þann 27. júlí, nk.

Með Druslugöngunni viljum við færa ábyrgð kynferðisglæpa frá fórnarlömbunm og yfir á gerendur. Við viljum ekki einblína á klæðnað, hegðun eða fas þolenda sem mögulega afsökun fyrir glæpamenn. 

Við viljum einfaldlega að menn hætti að nauðga.



Gangan verður farin frá Hallgrímskirkju klukkan 14:00, niður Skólavörðustíg, Bankastræti og mun enda á Austurvelli þar sem við taka fundarhöld og tónleikar.




Skoðun

Sjá meira


×