Fótbolti

Austria Vín tapaði stórt í Austurríki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nenad Bjelica tók við Austria Wien í síðasta mánuði.
Nenad Bjelica tók við Austria Wien í síðasta mánuði. Nordic Photos / AFP
Næsti andstæðingur FH í forkeppni Meistaradeildar Evrópu mátti þola pínlegt tap í austurrísku deildinni í kvöld. Liðíð mætti Red Bull Salzburg og tapaði 5-1 á útivelli.

Austria Vín er ríkjandi meistari í Austurríki en er með nýjan þjálfara. Deildin er nýhafin en liðið vann Admira Wacker í fyrstu umferðinni, 2-0.

Red Bull Salzburg fer vel af stað í deildinni og er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar.

Tap Austria Vín veit vonandi á gott fyrir FH-inga sem höfðu í dag betur gegn Þór, 1-0, í Pepsi-deild karla. Liðið sem hefur betur í rimmunni í forkeppni Meistaradeildarinnar fær 540 milljónir í kassann.

Austurríski boltinn er í sárum eftir að Breiðablik sló Sturm Graz úr keppni í forkeppni Evrópudeildar UEFA fyrr í vikunni.

Fyrri leikur Austria Vínar og FH verður í Austurríki á þriðjudaginn og sá síðari hér á landi viku síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×