Fótbolti

Rúnar: Gerðum það sem við þurftum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, þakkar fyrir að sínir menn séu í betra formi en norður-írska liðið Glentoran. KR vann leik liðanna í Belfast í kvöld, 3-0, og komst þar með áfram í forkeppni Evrópudeildar UEFA.

„Þetta var erfitt framan af á meðan þeir höfðu orku,“ sagði Rúnar í viðtali við KR-útvarpið eftir leik. Glentoran er nú á miðju undirbúningstímabili en KR-ingar eru í góðu leikformi enda tímabilið á Íslandi nánast hálfnað.

„Við gerðum það sem við þurftum að gera og unnum sannfærandi sigur á útivelli. Við erum nú komnir áfram sem er gríðarlega mikilvægt fyrir alla félagsmenn KR.“

„Það þarf að hafa fyrir svona sigri og menn lögðu sig gríðarlega mikið fram. Við þurftum algjöran toppleik til að vinna í kvöld.“

Það var hlýtt í Belfast í kvöld og Rúnar segir að aðstæður hafi verið erfiðar. „Völlurinn var erfiður og boltinn rúllaði hægt á milli manna. En þegar við vorum búnir að venjast því og hitanum náðum við að færa meiri ró yfir okkar leik. Enda spiluðum við betur í síðari hálfleik.“

KR mætir nú belgíska stórliðinu Standard Liege í annarri umferð forkeppninnar. „Það verður ofboðslega skemmtilegt. Fyrir þessu eru menn að strita allan veturinn - að fá að taka þátt í skemmtilegum Evrópuleikjum.“

„Fyrri leikurinn er á heimavelli í næstu viku og við viljum fyrst og fremst sjá til þess að þetta klárist ekki þá. Maður vill fá tvo góða leiki í einvígi sem þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×