Fótbolti

Margrét Lára: Með þessu erum við komnar inn í mótið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Daníel
Margrét Lára Viðarsdóttir tryggði íslenska landsliðinu sitt fyrsta stig á stórmóti með því að jafna leikinn úr vítaspyrnu fjórum mínútum fyrir leikslok.

„Það var mikill léttir að sjá boltann í markinu og þetta var eitthvað sem ég skuldaði stelpunum, Sigga og félögum. Þetta var rosalega góð tilfinning," sagði Margrét Lára. Íslenska liðið tók öll völd á vellinum í seinni hálfleiknum.

„Við erum með sterka karektara í þessu hópi og þeir stigu fram á þessum tímapunkti og voru að hvetja hinar áfram.  Við höfum trú á þessu allan tímann en það voru svolítið blendnar tilfinningar þegar við jöfnuðum. Þá fer maður að hugsa - á maður að sækja þrjú stig eða halda fengnum hlut. Við vildum ekki missa það sem við vorum komnar með en maður var samt svolítið hungraður í þrjú stigin. Síðustu tíu mínúturnar voru svolítið erfiðar hvað það varðar en mér fannst við leysa það vel. Við hefðum hæglega geta tekið þrjú stig," sagði Margrét Lára.

„Þetta gefur okkur mikið sjálftraust og með þessu erum við komnar inn í mótið. Þetta gefur okkur jákvæða orku fyrir framhaldið. Það verður erfiður leikur á móti Þýskalandi en við byrjum með 0-0 og það er eitt stig. Við myndum taka því fyrirfram en svo sjáum við hvað gerist eftir 90 mínútur á sunnudaginn. Við ætlum okkur að vinna þann leik. Við ætlum okkur upp úr riðlinum og þau markmið eru skýr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×