Fótbolti

Guðbjörg: Við vorum miklu kraftmeiri en þær í lok leiksins

Óskar Ófeigur Jónsson í Kalmar skrifar
Mynd/AP
Guðbjörg Gunnarsdóttir fékk tækifærið í marki Íslands í 1-1 jafntefli á móti Noregi í kvöld en Þóra Björg Helgadóttir sat á bekknum. Þóra er ekki alveg búin að ná sér af meiðslunum sem eru að hrjá hana og því var gott fyrir Sigurð Ragnar Eyjólfsson að geta leitað til jafn öflugs markvarðar eins og Guðbjargar.

„Það var gríðarlega mikilvægt að ná að jafna leikinn en ég er næstum því eiginlega svekkt að við skyldum ekki náð öllum stigunum í lokin. Auðvitað er eitt stig samt miklu betra en ekkert stig," sagði Guðbjörg.

Hún fékk á sig mark á 26. mínútu sem lengi vel leit út fyrir að ætlaði að vera sigurmarkið í leiknum.

„Mér fannst ég vera búin að loka öllun vinklinum hennar og ég skil bara ekki hvernig hún náði að pota boltanum framhjá mér og í stöngina og inn. Mér fannst ég loka þessu nógu vel og að hún ætti ekki að getað sett hann framhjá mér. Því miður náði hún að koma boltanum í markið en hún sparkaði í mig og ég veit ekki með hverju hún sparkaði í boltann," sagði Guðbjörg.

„Við sýndum frábæran karakter í þessum leik og seinni hálfleikurinn er einn sá besti sem við höfum spilað í mjög langan tíma. Þær sköpuðu mjög lítið á sama tíma og við sköpuðum mjög mikið af færum," sagði Guðbjörg.

„Ég ætla að nota tækifærið til að gera aðeins grín af þessarri formumræðu. Við vorum miklu kraftmeiri en þær í lok leiksins og áttum miklu kraftmeiri sóknir en þær. Ég held allavega að við höfum sannað það fyrir sjálfum okkur að við erum í formi," sagði Guðbjörg.

Í blálok leiksins fór boltinn af Glódísi Perlu Viggósdóttur og í slána. Sem betur fer fór boltinn "réttu" megin fyrir íslenska liðið. „Ég kallaði að ég ætlaði að taka hann og hún ætlaði að taka hann. Þetta var bara til að gera leikinn skemmtilegri," sagði Guðbjörg í léttum tón.

„Það hefði verið hrikalegt að tapa þessu. Eitt stig er kannski sanngjörn niðurstaða. Þær voru sterkari í fyrri hálfleik en við vorum sterkari í þeim seinni," sagði Guðbjörg.

„Það var kærkomið að fá loksins tækifærið og fá að sýna sig annarsstaðar en á Algarve eða þannig mótum. Það var mjög skemmtilegt að fá að spila þennan leik og auðvitað vonast ég til að fá að spila meira," sagði Guðbjörg.

„Þetta stig gefur okkur sjálfstraust inn í næsta leik en það er ekkert lítið verkefni sem bíður okkar þar. Nú höfum við í það minnsta sannað það fyrir sjálfum okkur að við getum líka spilað góðan sóknarleik og ekki bara varnarleik," sagði Guðbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×