Fótbolti

Særðir Svíar slátruðu Finnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Markadrottningin Lotta Schelin fagnar fyrra marki sínu í Gautaborg í kvöld.
Markadrottningin Lotta Schelin fagnar fyrra marki sínu í Gautaborg í kvöld. Nordicphotos/Getty
Svíar dansa eflaust eitthvað inn í nóttina eftir frábæran sigur kvennalandsliðsins gegn Finnum í kvöld. Lokatölurnar í Gautaborg urðu 5-0 Svíum í vil sem tylla sér á topp A-riðils með sigrinum.

Svíar gerðu óvænt 1-1 jafntefli við Dani í fyrsta leik liðsins þar sem tvær vítaspyrnur fóru út um þúfur. Það var snemma ljóst í Gautaborg í kvöld að heimakonur ætluðu ekki að misstíga sig aftur.

Nilla Fischer kom Svíum yfir með skalla eftir hornspyrnu strax á 15. mínútu og bætti öðru marki við á 36. mínútu þegar hún fylgdi vörðu skoti vel eftir. Aftur kom mark Svía eftir hornspyrnu en þær sænsku eru stórhættulegar í föstum leikatriðum.

Kosovare Asllani skoraði þriðja markið með fallegum skalla tveimur mínútum síðar og aðeins spurning hversu stór sigur Svía yrði.

Asllani nýtti sér mistök á miðjunni hjá Finnum á 60. mínútu og sendi Lottu Schelin eina í gegn. Schelin kláraði færið af mikilli yfirvegun. Schelin bætti við öðru marki með skalla þremur mínútum fyrir leikslok.

Svíar hafa fjögur stig í toppsæti riðilsins en liðið hefur betri markatölu en Ítalir sem hafa jafnmörg stig. Danir og Finnar hafa eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×