Fótbolti

Koma Cavani mun fæla Zlatan í burtu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Aurelio De Laurentiss, forseti Napoli, telur ekki líklegt að Zlatan Ibrahimovic muni ekki spila með franska stórliðinu PSG á næstu leiktíð.

Ástæðan er sú að PSG er að kaupa sóknarmanninn Edinson Cavani frá Napoli en orð forsetans þykja nánast staðfesta að Úrúgvæinn muni spila í Frakklandi á næstu leiktíð.

Cavani er væntanlegur til Frakklands í vikunni þar sem hann mun ganga frá félagaskiptum sínum til PSG. Kaupverðið er sagt nema 64 milljónum evra, rúma tíu milljarða króna.

Zlatan hefur helst verið orðaður við Manchester City og Real Madrid en Carlo Ancelotti tók við síðarnefnda liðinu nú í vor eftir að hafa stýrt PSG til sigurs í frönsku úrvalsdeildinni í vor. Zlatan og Ancelotti voru nánir og lýsti Zlatan yfir vonbrigðum sínum með að missa Ancelotti til Madrídar á sínum tíma.

Umboðsmaður Zlatans, Mino Raiola, og Nasser Al-Khelaifi, forseti PSG, hafa þó báðir neitað því í fjölmiðlum að Zlatan sé á leið til annars félags nú í sumar. De Laurentiis er þó ekki sammála því.

„Hann mun ekki spila með Cavani,“ sagði hann. „Það er nú þegar búið að lofa honum annars staðar.“

De Laurentiis talaði þar að auki ekkert sérstaklega vel um Cavani sjálfan. „Hann hefði aldrei skorað 30 mörk án liðsfélaga sinna í Napoli. En Cavani hugar bara um peninga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×