Innlent

María Birta vill að málið verði gott fordæmi

Karen Kjartansdóttir skrifar
Leikkonunni Maríu Birtu Bjarnadóttur hafa verið dæmdar skaðabætur vegna klúrrar auglýsingar sem sett var á stefnumótasíðu ásamt símanúmeri hennar. Hún segist vona að mál hennar vekji fólk til umhugsunar áður en það setur róg inn á netið

Kvöld eitt árið 2011 fóru Maríu Birtu skyndilega að berast símtöl frá mönnum sem spurðu hvort hægt væri að kaupa hjá henni kynlíf. Henni var brugið og komst fljótlega að því að einhver hafði sett símanúmer hennar við klúra auglýsingu á stefnumótavef. Hún kærði málið og leiddi lögreglurannsókn í ljós að kona sem var henni málkunnug hafði sett skilaboðin inn á vefinn. Konan var í byrjun mánaðarins dæmd til að greiða Maríu 250 þúsund krónur í skaðabætur.

„Mér finnst að réttlætið hafi sigrað og ég er ánægð með niðurstöðuna," segir María Birta.

Maríu Birtu sárnar mjög að einhverjir hafi sakað hana um fégræðgi í tengslum við þetta mál. Það hafi kostað hana miklu meira en þær skaðabætur sem hún fái vegna þessa.

„Fólk má alveg halda það sem það vill en ég held að þeir sem eitthvað þekkja til geri sér fyllilega grein fyrir því að það hefur kostað mig mjög mikla peninga að standa í þessu máli. En ég myndi aldrei láta valta svona yfir mig án þess að svara fyrir það. Mér finnst fólk fara of frjálsri hendi um internetið. Það skrifar oft það sem því dettur í hug án þess að pæla í afleiðingum orða sinna og þetta þykir mér dæmi um það."

Stúlkan sem var dæmd hefur fullyrt að um vinarhrekk hafi verið að ræða sem María Birta hafi ekki kunnað að taka. María Birta segir það ósatt enda hafi þær ekki verið vinkonur heldur aðeins málkunnugar.

 

María Birta vonar að málið verði fordæmisgefandi. „Ég vona ekki að hér fari allir að kæra alla þá sem eitthvað segja um þá heldur að fólk hugsi áður en það skrifar á netið. Svona gerir maður bara ekki.“  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×