Fótbolti

Sjö hafa spilað allar 180 mínúturnar

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Það var léttur dagur hjá þeim sem hafa spilað mest á EM
Það var léttur dagur hjá þeim sem hafa spilað mest á EM Mynd/ÓskarÓ
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta spilar á morgun sinn þriðja og síðasta leik í riðlakeppni Evrópumótsins í Svíþjóð. Íslenska liðið gerði jafntefli við Noreg í fyrsta leik en tapaði síðan síðasta leik á móti Þýskalandi.

Það hefur verið álag á leikmönnum íslenska liðsins enda er spilað þétt. Leikurinn á móti Hollandi á morgun verður þriðji leikur liðsins á sex dögum.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, gat ekki hvílt leikmenn síns eins mikið og hann ætlaði í síðasta leik þar sem hann þurfti að eyða öllum sínum þremur skiptingum í meidda leikmenn.

Nú er svo komið að sjö leikmenn íslenska liðsins hafa spilað allar 180 mínútur Íslands í mótinu. Þetta eru reyndar 189 mínútur og 45 sekúndur ef við tökum uppbótartímann með.

Leikmenn íslenska liðsins sem hafa verið inn á vellinum allan tímann eru þær Katrín Jónsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir, Guðbjörg Gunnarsdóttir, Rakel Hönnudóttir, Dóra María Lárusdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×