Fótbolti

Sigurður Ragnar: Búinn að skoða vel leik Hollendinga á móti Noregi

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Mynd/ÓskarÓ
Sigurður Ragnar Eyjólfsson er kominn með íslenska kvennalandsliðið í þá stöðu að vera einum sigri frá því að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Evrópumótsins í Svíþjóð. Liðið mætir Hollandi í úrslitaleik um sæti meðal þeirra átta bestu í Evrópu.

„Það er frábært að hafa búið til þetta tækifæri að fá úrslitaleik um að komast áfram í átta liða úrslitin. Vonandi stöndum við okkur vel," segir Sigurður Ragnar.

„Holland er sennilega fljótasta liðið í mótinu það er að fjórir fremstu leikmenn liðsins er með gríðarlegan hraða. Þær eru áræðnar og tæknilega góðar. Þær eru líka með með lið sem heldur boltanum vel. Þær spila mörgum sendingum á milli sín og fara síðan allt í einu hratt af stað," segir Sigurður.

„Þetta er gott lið enda gerðu þær jafntefli við Þjóðverja. Noregur sýndi það líka að það er hægt að spila taktískt vel á móti þeim og ná góðum árangri. Við erum búin að skoða vel leik Hollendinga á móti Noregi. Norðmennirnir gerðu þetta mjög skynsamlega. Þær vörðust vel, gáfu eftir ákveðin svæði og reyndu síðan að sækja hratt. Þær skoruðu síðan gott mark. Þær voru með færri skot á markið og minna með boltann en unnu engu að síður leikinn," segir Sigurður Ragnar.

„Hollensku stelpurnar töluðu um það í viðtölum fyrir mótið að þær ætluðu að gera betur en síðast á EM og fara í úrslitaleikinn. Þær voru með miklar væntingar og byrjuðu síðan mjög vel með því að ná í stig á móti Þjóðverjunum. Það voru mikil vonbrigði hjá þeim að tapa á móti Noregi og svo er svo stutt á milli. Þær fá bara einn leik í viðbót og verða að vinna hann til þess að komast áfram," segir Sigurður Ragnar.

„Þær byrjuðu mótið rosalega vel og það leit allt vel út en svo bara einum leik seinna eru þær komnar í vesen. Það er jákvætt að það er einn leikur eftir. Bæði lið þurfa að vinna og það getur haft áhrif á leikinn og hann gæti orðið opinn og fjörugur þegar líður á hann," segir Sigurður Ragnar.

„Það verður bara spennandi að sjá hvernig stelpurnar spjara sig í svona leik. Þegar líður á leikinn þá þurfa bæði lið að taka einhverjar áhættur en ég á samt frekar von á því að leikurinn byrji rólega hjá báðum liðum. Eftir því sem líður á leikinn hljóta bæði lið að vilja taka einhverja áhættur til þess að komast áfram," segir Sigurður Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×