Fótbolti

Sara Björk með fyrirliðabandið á auglýsingaspjaldinu í Kalmar

Óskar Ófeigur Jónsson í Kalmar skrifar
Mynd/ÓskarÓ
Katrín Jónsdóttir er fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta og hefur verið það allar götur síðan að Sigurður Ragnar Eyjólfsson tók við liðinu í ársbyrjun 2007. Mynd á auglýsingu fyrir leiki Evrópumeistaramótsins hér í Kalmar vekur því athygli en þar er það Sara Björk Gunnarsdóttir sem ber fyrirliðabandið.

Sara Björk hefur verið fyrirliði íslenska liðsins í forföllum Katrínar síðasta árið og landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur afhent henni fyrirliðabandið þrátt fyrir ungan aldur og að reynslumeiri leikmenn hafi verið í liðinu í þau skipti.

Sara Björk var meðal annars fyrirliði íslenska liðsins í tveimur leikjum í Algarve-bikarnum í mars og þaðan hafa mótshaldarar eflaust fengið þessa mynd sem prýðir "íslenska" auglýsingaspjaldið hér í Kalmar.

Það er ólíklegt að Katrín láti þetta pirra sig eitthvað eða hvort að hún viti hreinlega af þessu enda algjört aukaatriði. Það þarf ekkert fyrirliðaband til að finna út hver er fyrirliði íslenska liðsins.

Katrín er hinsvegar að spila sína síðustu leiki á þessu ári og hver veit nema að Sara Björk verði orðin fyrirliði í fullu starfi eftir að skór Katrínar eru komnir upp á hillu. Sara Björk er mikið leiðtogaefni og hefur meðal annars verið fyrirliði sænska liðsins LdB FC Malmö í einhverjum leikum á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×