Fótbolti

Cruyff myndi selja Messi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Hollendingurinn Johan Cruyff telur að það sé ekki pláss fyrir þá Lionel Messi og Neymar í sama liðinu.

Neymar samdi fyrr í sumar við Barcelona en Lionel Messi hefur verið í aðalhlutverki hjá liðinu undanfarin ár.

„Ég hefði ekki keypt Neymar,“ sagði Cruyff í samtali við spænska blaðið Marca. „En fyrst hann kom hefði ég skoðað þann möguleika að selja Messi. Sumir eru sammála því og aðrir ekki.“

„Það er of mikið í húfi þegar maður er að stýra liði og leikmönnum þess. Þess vegna er mjög erfitt að þjálfa svona sterkt lið.“

„Tökum sem dæmi aukaspyrnurnar. Neymar er mjög góður spyrnumaður og Messi er það líka. Hver mun taka aukaspyrnurnar?“

„Svo er það sú staðreynd að Nike er með samning við Barcelona og Neymar. Messi er hjá Adidas. Það gæti skapað vandamál.“

Cruyff, sem var áður leikmaður og þjálfari hjá Barcelona, telur þó ekki miklar líkur á því að félagið sé sama sinnis. „Við verðum að bíða og sjá til. Þetta er áhætta og gæti endað illa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×