Fótbolti

Helgi Valur á leið til Portúgals

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Valur Daníelsson í leik með AIK.
Helgi Valur Daníelsson í leik með AIK. Nordic Photos / Getty Images
Helgi Valur Daníelsson mun halda til Portúgals eftir helgi og að öllu óbreyttu semja við úrvalsdeildarfélagið Belenenses í höfuðborginni Lissabon.

Félagið tilkynnti í gærkvöldi að það væri nálægt því að ganga frá samningum við Helga Val, sem leikur með AIK í Svíþjóð.

„Leikmaðurinn kemur til Lissabon á þriðjudaginn þar sem hann mun gangast undir hefðbundna læknisskoðun og undirrita samninginn,“ sagði einn forráðamanna félagsins við portúgalska fjölmiðla.

Samningur Helga Vals við AIK rennur út eftir tímabilið en fyrr á þessu ári var honum tilkynnt að hann myndi ekki fá nýjan samning. Hann á að baki 27 leiki með íslenska landsliðinu.

Belenenses er nýliði í portúgölsku úrvalsdeildinni eftir að hafa unnið B-deildina síðastliðið tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×