Íslenski boltinn

Brjósklos útilokað hjá Andra Ólafssyni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Andri Ólafsson á enn eftir að spila deildarleik með KR.
Andri Ólafsson á enn eftir að spila deildarleik með KR. Mynd/Heimasíða KR
„Ég vona að ég fái að æfa á þriðjudaginn," segir Andri Ólafsson leikmaður KR. Andri hefur verið frá keppni í allt sumar vegna meiðsla.

„Það er eitthvað að angra mig í bakinu," segir miðjumaðurinn sem gekk til liðs við KR í vetur. Andri samdi við Vesturbæjarliðið til þriggja ára og spilaði töluvert á undirbúningstímabilinu. Daginn fyrir fyrsta leik sumarsins í deildinni meiddist hann.

„Það var frábær tímasetning," segir Andri léttur. Hann viðurkennir þó að vera orðinn langþreyttur á meiðslum enda hefur hann verið mikið frá keppni undanfarin ár af þeim sökum.

„Þetta er örugglega líka pirrandi fyrir þá sem eru að þjálfa mig," segir Andri. Talið var að Andri gæti verið með brjósklos en sem betur fer fékkst neikvæð niðurstaða úr skoðun hvað það varðar í síðustu viku.

Andri heldur til sjúkraþjálfara á þriðjudaginn og þá verður metið hvort hann geti hafið æfingar að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×