Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur Ó. - FH 0-4

Kári Viðarsson í Ólafsvík skrifar
Íslandsmeistarar FH sýndu mátt sinn í dag þegar þeir völtuðu yfir varnarlausa Víkinga í Ólafsvík. Heimamenn voru daprir og áttu engin svör við leik fimleikafélagsins sem vann að lokum 4-0 sigur án þess að þurfa að setja í svo mikið sem fjórða gír.

FH-ingar byrjuðu leikinn að miklum krafti og pressuðu heimamenn hátt á vellinum. Kraftmikil byrjun sem skilaði árangri þegar Freyr Bjarnason spyrnti knettinum örugglega í mark heimamanna eftir góða hornspyrnu Ólafs Páls Snorrasonar sem átti mjög góðann leik í dag. Þessi draumabyrjun meistaranna sló nýliðana úr Ólafsvík alveg útaf laginu. Þeir náðu ekki upp neinu spili, voru hugmyndasnauðir og tefldu ítrekað á tæpasta vað í öftustu línu. Í nokkur skipti mátti litlu muna að Hafnfirðingar næðu að refsa þeim fyrir glæfralegar sendingar til baka en Einar Hjörleifsson, markvörður Víkinga gerði vel í að bjarga varnarmönnum sínum fyrir horn.

Eftir um 20 mínútna leik komust Víkingar loks í takt við leikinn og sköpuðu sér sitt fyrsta góða marktækifæri. Guðmundur Magnússon komst þá af harðfylgi í ákjósanlega stöðu gegn Daða Lárussyni en varnarmenn FH náðu að koma í veg fyrir að hann næði skoti á mark. Guðmundur lá flatur í teignum eftir þessi viðskipti og stuðningsmenn heimamanna heimtuðu víti. Ekkert var dæmt.

Örskömmu síðar bættu gestirnir svo við sínu öðru marki þegar Farid-Zato potaði boltanum í sitt eigið mark eftir misheppnað skot frá Birni Daníel Sverrissyni. Staðan 0-2 í hálfleik og drengirnir úr fimleikafélaginu héldu til búningsherbergja með bros á vör.

Víkingar virtust ætla að selja sig dýrar í seinni hálfleik en sú barátta fjaraði út þegar FH-ingar bættu við sínu þriðja marki. Guðmann Þórisson, besti maður vallarins, skallaði knöttinn þá af miklu harðfylgi í net Víkinga eftir hornspyrnu Sam Tillen. Alfreð Már Hjaltalín, besti leikmaður Víkinga í dag, virtist hafa bjargað á línu en Örvar Sær Gíslason, góður dómari leiksins, dæmdi réttilega mark.

Niðurlæging heimamanna var svo fullkomnuð þegar gamla kempan og markarefurinn Atli Viðar Björnsson skoraði auðvelt mark sendingu frá Ólafi Páli Snorrasyni.

Niðurstaðan í dag því auðveldur 0-4 sigur Íslandsmeistaranna úr Hafnarfirði sem voru einfaldlega í öðrum klassa en lið heimamanna.

Ejub Purisevic: Þetta er einfaldlega mjög erfitt fyrir okkurÞjálfari Víkinga var fámáll eftir tapið en reyndi að líta björtu hliðarnar.

„Mér fannst fyrri hálfleikur alls ekkert svo slæmur en við fáum því miður á okkur mark snemma og þá varð þetta strax mjög erfitt. FH er með mjög gott lið og þegar við fáum á okkur þriðja markið þá gátum við lítið gert, það eina jákvæða sem hægt er að segja er að við héldum haus og kláruðum leikinn eins og menn." Sagði Ejub.

Aðspurður um það hvort hann væri farinn að íhuga afsögn eftir slaka byrjun í mótinu svaraði Ejub:

„Það er ekki búið að reka mig og ég hugsa ekkert um þessa hluti."

Guðmann Þórisson: Ég er mjög sátturGuðmann Þórisson, miðvörður FH og maður leiksins í dag, var ánægður með liðsfélaga sína eftir leik.

„Við spiluðum vel og leikskipulagið sem Heimir setti upp heppnaðist fullkomlega. Ég get ekki verið annað en sáttur."

„Þetta var fínn leikur og við spiluðum fínt en við hjá FH viljum alltaf gera betur og vitum að við getum gert mikið betur en við gerðum hér dag." Sagði Guðmann Þórisson, bjartsýnn á framhaldið í næstu leikjum.

Heimir Guðjónsson: Frábærar móttökur og umgjörðÞjálfari FH var mjög ánægður með spilamennsku sinna manna í dag.

„Þetta var góður sigur hjá okkur en þetta var alls ekki eins auðvelt og úrslitin gefa til kynna. Ég vil bara nota tækifærið og þakka Víkingum fyrir leikinn og frábærar móttökur hér í dag. Bæði völlurinn og öll umgjörð hér í dag eru alveg frábær og mjög gaman að koma hingað til að spila fótbolta"

„Við vildum koma sterkir til baka eftir svekkjandi tap gegn KR og við gerðum það" Sagði Heimir Guðjónsson, glettinn þjálfari FH eftir frækinn sigur sinna manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×