Enski boltinn

Ferguson og Mourinho skiptust á leyndarmálum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
„Ég vissi að Ferguson myndi hætta fyrir mörgum mánuðum og ég var í skýjunum að hann skildi treysta mér fyrir þessum miklu fréttum," segir Jose Mourinho.

Mourinho, sem nýverið tók aftur við liði Chelsea, segist hafa treyst Ferguson fyrir leyndarmáli í skiptum. Það hafi verið að Chelsea væri liðið sem hann vildi taka að sér á nýjan leik.

„Ég reikna með því að aðeins fólk í innsta hring hafi vitað það (innsk: að Ferguson væri að hætta) þannig að ábyrgðin var mikil fyrir mig að halda fréttunum útaf fyrir mig," sagði Portúgalinn við Guardian.

„Af hverju vissi ég að hann væri að hætta? Af því við erum vinir. Ef ég sem vinur hans veit að hann ætlar að hætta þá veit hann sömuleiðis sem vinur minn að ég vil aðeins þjálfa Chelsea á Englandi. Auðvitað sagði ég honum frá því."

Portúgalinn bætti því við að hann hefði hafnað hvaða starfi í heiminum fyrir tækifærið að taka aftur við liði Chelsea.

Mourinho segir samband sitt við eiganda Chelsea, Roman Abramovich, alltaf hafa verið gott. Þá neitaði hann að Rússinn hefði keypt Andriy Shevchenko án samráðs við sig. Hingað til hefur verið talið að kaupin á Úkraínumanninum hafi verið ein ástæða þess að Mourinho yfirgaf Chelsea.

„Við vildum kaupa Samuel Eto'o. Roman gerði hvað hann gat til að fá Eto'o. Á síðustu stundu neitaði Barcelona að selja hann. Þá skoðuðum við aðra möguleika og ég var ánægður með Shevchenko."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×