Íslenski boltinn

Tók snúðinn úr hárinu

Eyþór Atli Einarsson skrifar
Óskar Örn og snúðurinn góði.
Óskar Örn og snúðurinn góði. Mynd/Valli
„Ég ákvað að taka þennan snúð úr hárinu og leyfði vindinum að leika um lokkana. Það skilaði sér heldur betur í dag,“ sagði Óskar Örn Hauksson, leikmaður KR, sem skoraði eitt mark og lagði upp tvö önnur fyrir sitt lið í dag.

„Við vorum að spila þetta svolítið í hendurnar á þeim í fyrri hálfleik, sem er það versta sem gat gerst fyrir okkur. Við þjöppuðum okkur vel saman í hálfleik og fórum vel yfir hlutina.“ sagði Óskar Örn en hann vildi þó meina að hárblásaraaðferð Alex Fergusson, fyrrum stjóra Manchester United hafi ekki verið tekin af Rúnari Kristinssyni þjálfara.

„Rúnar var nú nokkuð rólegur og við tókum okkur saman í andlitinu. Pétur (Pétursson aðstoðarþjálfari) var þó eitthvað að reyna að þenja sig og gott ef það hafi ekki skilað sér inn í síðari hálfleikinn.“ sagði Óskar kampakátur og var ekki tilbúinn að viðurkenna að stoðsending hans á Kjartan Henry í öðru markinu hafi verið mislukkað skot.

„Þetta var svona sambland af skoti og sendingu. Ég vissi að Kjartan myndi mæta á fjær og maður þarf að rífa sjálfstraustið upp hjá drengnum. Hann er búinn að vera lengi frá,“ sagði Njarðvíkingur glottandi að lokum.

Nánari umfjöllun, viðtöl og einkunnir úr Vesturbænum má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×