Enski boltinn

Mourinho ánægður með nýju reglurnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Nýjar og strangari reglur um fjárhag knattspyrnufélaga í Evrópu eru af hinu góða, segir Jose Mourinho, stjóri Chelsea.

Félög geta nú ekki eytt um efni fram og keypt dýra leikmenn ef félagið er rekið með tapi. Viðurlög geta þýtt útilokun frá keppnum á vegum Knattspyrnusambands Evrópu, svo sem Meistaradeild Evrópu.

Chelsea hefur þegar keypt Andre Schürrle frá Leverkusen og félagið er einnig sagt vera með Edinson Cavani, Hulk og Wesley Sneijder í sigtinu.

„Reglurnar eru mjög krefjandi og maður þarf að hugsa um hvert einasta skref sem maður tekur. Hver röng ákvörðun hefur mikil áhrif á framtíðina,“ sagði Mourinho við enska fjölmiðla.

„Þetta krefst nánari samstarfs við stjórn félagsins um fjármálin og maður verður að líta öðrum augum á leikmenn sem eru í láni hjá öðrum félögum eða þeim sem spila með unglingaliðunum.“

„Maður verður að vera mjög víðsýnn. Þetta snýst ekki bara um manns eigið lið og markmið þess. Þetta snýst um svo miklu meira og ég er ánægður með það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×