Fótbolti

Tahiti tapaði með stæl

Leikmenn Tahiti fögnuðu marki sínu með stæl. Þeir fóru að róa.
Leikmenn Tahiti fögnuðu marki sínu með stæl. Þeir fóru að róa.
Áhugamennirnir frá Tahiti þreyttu í kvöld frumraun sína á stórmóti í knattspyrnu er þeir mættu Nígeríu í Álfukeppninni. 107 sæti skilja liðin að á FIFA-listanum og því var búist við afar ójöfnum leik sem varð raunin. Lokatölur 6-1 fyrir Nígeríu.

Lið Tahiti stóð sig þó betur en margur þorði að vona en liðið gaf allt of klaufaleg mörk. Allt varð þó vitlaust á vellinum er Jonathan Tehau skoraði fyrir Tahiti. Tehau skoraði síðan sjálfsmark skömmu síðar.

Fyrsta mark leiksins kom eftir rúmar fjórar mínútur. Það var afar slysalegt. Skot fór af tveimur varnarmönnum Tahiti og í markið. Það mark gaf tóninn fyrir það sem koma skildi en gríðarlegur munur var á styrkleika liðanna.

Nnamdi Oduamadi skoraði þrennu fyrir Nígeríu í kvöld en lið Nígeríu þótti ekkert sérstakt þrátt fyrir sigurinn.

Tahiti er í 138. sæti á FIFA-listanum og allir leikmenn liðsins eru áhugamenn. Í liðinu eru íþróttakennarar og endurskoðendur. Níu leikmenn í hópnum eru síðan atvinnulausir. 180 þúsund manns búa í landinu.

Það er þó einn atvinnumaður í liðinu, Maram Vahirua, en hann spilar með gríska liðinu Panathinaikos. Reynsla hans hjálpaði liðinu lítið í kvöld.

Í byrjunarliði kvöldsins voru fimm leikmenn úr sömu fjölskyldu, þrír atvinnulausir, tveir sem vinna í verksmiðju og markvörðurinn starfar sem bílstjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×