Innlent

Þarf að fjölga barna- og unglingageðlæknum

Ingveldur Geirsdóttir skrifar

Bertrand Lauth formaður Barnageðlæknafélags Íslands segir að staðan á geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga hér á landi sé ekki  nógu góð. Eftirspurnin sé mikil en þjónustan af skornum skammti, setja þurfi þessi mál í forgang, gera þjónustuna aðgengilegri og fjölga barna- og unglingageðlæknum.

„Við erum átta starfandi. Sérfræðiþjónusta eins og hún er í dag, þjónusta sem barnageðdeildir og  barnageðlæknar veita og sérfræðingar á stofu líka, nær einungis að sinna þriðjungi af þeim börnum og unglingum sem þurfa á þessari þjónustu að halda," segir Bertrand.

Af þessum átta barna- og unglingageðlæknum starfa sex að hluta til í útlöndum, auk þess sem einn býr á Akureyri og starfar ekkert hér á landi sem stendur. Bertrand segir að fyrir árið 2008 hafi enginn þeirra starfað utan Íslands.  

„Ég held að best væri að skoða vinnuálagið og kjör lækna almennt á Íslandi, ég held að margir séu sammála um það."

Bertrand segir ánægjulegt að nýlega hafi verið stofnuð kennarastaða í barna- og unglingageðlækningum við læknadeild Háskóla Íslands, það sé mjög mikilvægt fyrir framgang og þróun greinarinnar í landinu.

 „Við þurfum að fjölga barnageðlæknum til að mæta þessum þörfum sem koma fram í dag. Biðlistar eru að lengjast og við náum ekki að sinna öllum þessum börnum sem þurfa á þessari þjónustu að halda," segir Bertrand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×