Innlent

Ekkert lát á átökum í Tyrklandi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Gunnar Bjarnason, flugvirki sem búsettur er í úthverfi Istanbul, segir mikla ólgu í fólki á götum úti.
Gunnar Bjarnason, flugvirki sem búsettur er í úthverfi Istanbul, segir mikla ólgu í fólki á götum úti.

Mótmæli almennings gegn tyrknesku ríkisstjórninni halda áfram í borgum og bæjum víðsvegar um Tyrkland. Mannréttindasamtök fordæma þá hörku sem lögreglan hefur sýnt mótmælendum. Íslendingur búsettur í Istanbul segir átökin sýnileg um alla borg. 

 

Upphaflega var um friðsæl mótmæli að ræða, vegna fyrirhugaðrar byggingar verslunarmiðstöðvar í Ankara sem lögregla brást harkalega við. Nú á fjórða degi mótmælanna virðist allt vera að sjóða upp úr, en lögreglan hefur meðal annars skotið táragasi að mannfjöldanum. 

 

Mótmælin einkennast af bílflautum sem þeyttar eru og barið er í potta og pönnur. Gunnar Bjarnason, flugvirki, er búsettur í úthverfi Istanbul.  „Ég hafði í rauninni ekki orðið neitt sérstaklega var við þetta þar sem ég bý í úthverfi frekar langt frá miðbænum. Það var eiginlega fyrst í gærkvöldi sem ég heyri að fólk er byrjað að berja á áhöld og allir komnir út á svalir í íbúðunum sínum. Fólk flykkist út á götu þar sem heldur áfram með flautur og allskonar læti. Það er mikil ólga í fólki.“

 

Átökin magnast og hafa Sameinuðu þjóðirnar, yfirvöld á Bretlandi og í Bandaríkjunum lýst yfir furðu á hörku yfirvalda. Amnesty International staðfestir að tveir hafi látist í  átökum við lögreglumenn og að meira en þúsund hafi slasast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×